Skipulagsskrá þessi var staðfest af sýslumanninum á Sauðárkróki þann 27. mars 2012.
1. gr.
Nafn sjóðsins er Minningargjafasjóður Landspítala Íslands. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
Tilgangur hans er að stuðla að bættri meðferð sjúklinga, m.a. með styrkveitingum til þeirra eða aðstandenda þeirra og til tækjakaupa fyrir sjúkrahús og/eða til valinna verkefna á vegum Landspítala.
2.gr.
Sjóðurinn var stofnaður árið 1916 og hefur ávaxtast og aukist síðan, m. a. með framlögum sem til hans hefur verið veitt til minningar um látna menn.
3. gr.
Í árslok 2010 var eigið fé sjóðsins kr. 427.282.944. Af þeirri fjárhæð er höfuðstóll að fjárhæð kr. 692.000 sem óheimilt er að skerða.
4. gr.
Tekjur sjóðsins eru minningargjafir um látna menn, fjármagnstekjur og eftir atvikum aðrar tekjur.
5. gr.
Eignir sjóðsins skal varðveita og ávaxta á sem tryggastan hátt samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
6. gr.
Stjórn sjóðsins skipa 4-5 einstaklingar. Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér formann, ritara og gjaldkera en meðstjórnendur eru einn eða tveir. Í forföllum formanns ákveður stjórnin hver vera skuli staðgengill hans. Verði sæti autt í stjórninni vegna úrsagnar eða þess að einhverjum er ókleift að sinna stjórnarstörfum skulu aðrir stjórnarmenn kjósa nýjan stjórnarmann í stað viðkomandi.
7. gr.
Stjórn sjóðsins fundar eigi sjaldnar en 4 sinnum á ári. Stjórnin ákveður allar styrkveitingar úr sjóðnum og aðrar ráðstafanir á tekjum hans. Setur stjórnin reglur um umsóknir, meðferð þeirra og fylgigögn svo og um úthlutun fjármuna úr sjóðnum.
8. gr.
Stjórn sjóðsins er heimilt að ráðstafa tekjum hans að frádregnum gjöldum:
I. Til að styrkja sjúklinga sem þarfnast dvalar á sjúkrastofnun erlendis vegna þess að ekki er kostur á sams konar meðferð hér á landi. Styrk má m.a. veita vegna kostnaðar af nauðsynlegum ferðalögum og uppihaldi sjúklings og fjölskyldu. Slík styrkveiting er bundin því skilyrði að fyrir liggi umsögn læknis í viðkomandi sérgrein sem staðfesti nauðsyn utanfarar í þessu skyni .
II. Til að styrkja foreldra barns sem á við alvarleg eða langvinn veikindi og /eða fötlun að stríða, vegna ítrekaðra læknismeðferða og/eða rannsókna á barninu hér á landi. Styrk má m.a. veita vegna kostnaðar af nauðsynlegum ferðalögum og uppihaldi foreldranna.
Stjórn sjóðsins metur hverju sinni hvaða gögn þarf með umsóknum til staðfestingar á nauðsyn styrkveitingar skv. liðum I og II.
9. gr.
Ef enn er fé til ráðstöfunar í árslok, þegar styrkir skv. 8. gr. hafa verið greiddir út, er stjórn sjóðsins heimilt að verja því fé sem þá er afgangs til kaupa á tækjum og búnaði sem Landspítali þarfnast til meðferðar á sjúklingum og/eða valinna verkefna á vegum spítalans.
Stjórnin ákveður ár hvert fjárhæð styrkja til Landspítala, hvort styrkir til hans verði teknir frá og safnað til afhendingar síðar eða sama ár.
Stjórnin getur hvenær sem er ráðstafað eigin fé utan bundins höfuðstóls skv. 3. gr. til kaupa á tækjabúnaði fyrir Landspítala og/eða til valinna verkefna á vegum spítalans.
Komi í ljós að Landspítali telji sig ekki hafa þörf fyrir fjárveitingar í þessu skyni er stjórninni heimilt að veita slíkum fjármunum til annarra sjúkrahúsa hér á landi.
10. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem stjórnin velur og skal endurskoðun lokið eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár.
11.gr.
Samþykki meirihluta stjórnar sjóðsins þarf til að breyta skipulagsskrá þessari eða fella hana niður.
12.gr.
Leita skal staðfestingar Sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari en við staðfestingu hennar fellur úr gildi skipulagsskrá sjóðsins frá 28. mars 2007.
Reykjavík, 1. mars 2012
Í stjórn Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands
Drífa Pálsdóttir formaður kt. 080445-2379
Þorbjörg Guðnadóttir kt. 101048-2259
Vigdís Jónsdóttir kt. 160157-3999
Vilhelmína Salbergsdóttir kt. 190242-2779
Hildur Harðardóttir kt. 080657-5959